Íslenska Vasaskrímslaverkefnið í samstarfi við Landsbankann, Póstinn og Háskólaprent póstlagði bókagjöf til 169 grunnskóla á Íslandi á föstudaginn síðasta.

Við sem stöndum að bókagjöfinni erum mjög glöð að geta sent út fimm lestrarbækur um Vasaskrímslin að gjöf ásamt smá kynningarbréfi um verkefnið til skólabókasafna víðsvegar um landið.

Kynningarbréfið sem sent var með gjöfinni

Mismunandi er hvaða fimm bækur hver skóli fékk að gjöf því pakkarnir samanstóðu af blöndu af lestrarbókunum tíu sem komnar eru út um Vasaskrímslin. Allar bækurnar eru mjög spennandi og við vonum að allir viðtakendur hafi fundið eitthvað í pakkanum við sitt hæfi.

Þið sem gerðu þetta mögulegt

Öll vinnan við þessa bókagjöf og Vasaskrímslaverkefnið sjálft er unnin í sjálfboðastarfi með það að markmiði að styðja við lestrarnám barna. Enginn ágóði er af útgáfunni og allt efni því tengt er selt á kostnaðarverði. Við vorum því mjög þakklát að fá styrk upp á 250.000kr frá Landsbankanum og annan eins styrk frá Póstinum sem gaf okkur dreifinguna á pökkunum um allt land.

Elstu og helstu bakhjarlar Vasaskrímslanna í Háskólaprent unnu enn og aftur þrotlaust fyrir verkefnið. Piltarnir hjá Háskólaprent prentuðu, merktu og pökkuðu öllum bókunum og bréfunum í umslög. Ég sendi þeim sérstakar þakkir fyrir að statt og stöðugt að trúa á þetta verkefni og að taka þátt í þessari vegferð með mér. #jákvæð-karlmennska

Starfsmenn háskólaprent (Þröstur og Sigurður), eiturhressir og spenntir með bókagjafnirnar

Tveir af starfsmönnum Háskólaprents sem unnu að bókargjöfinni (Þröstur og Sigurður), eiturhressir að vanda með hluta af bókapökkunum 169.

Umslögin með gjöfunum, fremst á borðinu má svo sjá glitta í fyrstu tilraunaprentun
á lestrarbókum 11 til 20 sem væntanlegar eru innan tíðar.

Styrktaraðilarnir fá mínar innilegustu þakkir fyrir alla aðstoðina. Án ykkar hefði þetta ekki verið mögulegt.

Ég og allir sem koma að íslenska Vasaskrímslaverkefninu vonast til að tilvist þess og aðgengi að íslensku efni um Vasaskrímslin verði kveikjan hjá mörgum nemendum í grunnskóla á lestri og íslensku og stuðli að því að lestrarkunnátta aukist.

Við trúum á mikilvægi þess að gefa börnum, og þá sérstaklega drengjum, kost á að nálgast efni um Vasaskrímslin á íslensku og að þannig megi styðja við lestrarnám þeirra, virkja áhugahvötina með aðlaðandi og spennandi efni, og ná til barna sem glíma við bága lestrarfærni.

Framtíðarsýn íslenska Vasaskrímslaverkefnisins er að styðja við lýðræðislegt náms- og lærdómssamfélag. Verkefnið leggur áherslu á valdeflingu barna; að þau hafi val um fjölbreyttara efni sem nýta má til lestrarnámsins. Það er von okkar sem stöndum að verkefninu að með útgáfu efnisins takist að kveikja áhuganeistann á lestri og íslensku hjá fleiri börnum.

Takk fyrir okkur

Um Vasaskrímslabækurnar

Lestrarbækurnar fjalla um Vasaskrímslin (e. Pokemon) og heim þeirra. Hver lestrarbók er 12 blaðsíður og fjallar á einföldu og aðgengilegu máli um valin Vasaskrímsli og heim þeirra.

Lestrarbækurnar eru sérstaklega ætlaðar börnum sem eru komin aðeins lengra í heimalestri. Textinn er einfaldur og mikið um endurtekningar, þannig að lesandinn finnur fyrir getu sinni og sjálfstraust eykst. 

Allar bækurnar innihalda einfaldað efni upp úr stóru Vasaskrímslabókunum. Textinn hefur verið aðlagaður að þörfum barna sem eru að styrkja sig í lestri og þeirra sem eru að hefja lestrar vegferðina. Uppbygging bókanna tekur mið af því að:

  • Sérstaklega erfið orð eru feitletruð.
  • Löng orð eru brotin upp með bandstrikum til einföldunar.
  • Mikið er um endurtekningar í texta til að efla færni og sjálfstraust.
  • Unnið er með eflingu orðaforða og beitingu orða.
  • Áhersla er á stigskiptingu lýsingarorða.
  • Áhersla er á jákvæða tjáningu tilfinninga.
  • Unnið er með talnalæsi og samanburð (hæð og þyngd).
  • Forsíður eru sérhannaðar til að vera grípandi og höfða til drengja.
  • Myndefni er ætlað að örva ímyndunarafl og stuðla að jákvæðri lestrarupplifun.

Efnið er unnið með góðfúsri hjálp lestrarsérfræðinga í grunnskólum í Breiðholti og Hafnarfirði, auk ótal margra annara aðila sem koma að verkefninu af hugsjón í sjálfboðastarfi.