
Sunnudagsblað Moggans þann 12. apríl birtir skemmtilega grein um Vasaskrímslaverkefnið.
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1886215
Vasaskrímslin, betur þekkt hérlendis undir nafninu Pokémon, hafa verið gríðarlega vinsæl á Íslandi í formi tölvuleikja, teiknimynda og spilaspjalda.
Nýverið var bókagjöf með íslenskum lestrarbókum um Vasaskrímslin dreift í 169 grunnskóla um allt land.
Höfundur bókanna, Sverrir Sigmundarson, vill auka áhuga drengja á lestri.
…Aðspurður segir Sverrir viðtökurnar við bókunum um Vasaskrímslin hafa verið vonum framar. „Vasaskrímslaverkefnið sjálft er unnið í sjálfboðastarfi og höfum við sem að því stöndum verið svo heppin að fá stuðning frá fyrirtækjum sem hafa gert okkur kleift að láta ýmsa þætti verkefnisins verða að veruleika,“ segir hann.
„Bókagjöfin er gott dæmi um slíkt, því auk dyggrar aðstoðar frá Háskólaprenti við prentun og pökkun veitti Landsbankinn mér styrk upp á 250.000 krónur og Pósturinn gaf dreifinguna á öllum 169 bókapökkunum víðs vegar um landið. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir stuðninginn því án hans væru svona verkefni ekki möguleg.“
Sverrir segist hafa fengið ótalmargar kveðjur og að starfsfólk skólanna sé þakklátt fyrir þetta framtak. „Við höfum fengið kveðjur frá fólki um allt land og sögur af börnum sem jafnvel hafi aldrei viljað opnað bók, hafi ekki lesið mikið eða átt í erfiðleikum með að lesa, sem nú helli sér yfir bækurnar um Vasaskrímslin og lesi þær spjaldanna á milli. Þau vilji fá útskýringar á minnstu smáatriðum og séu mjög áhugasöm. Það er eitt mesta hrós sem hægt er að hugsa sér fyrir svona verkefni. Það er líka yndislegt að heyra að starfsfólk bókasafna segist verða oftar vitni að því að börnin tali um Vasaskrímslin frekar en Pokémon sín á milli eftir tilkomu bókanna. Það að strax sé komin pressa á mig frá ungu áhugafólki að klára fleiri bækur um Vasaskrímslin er einstaklega ánægjulegt og sýnir að áhugi barna á lestri og íslensku er til staðar og að það þarf oft ekki mikið til að kveikja lestrar- og námsneistann,“ segir Sverrir…