Vasaskrímslaverkefnið var eitt fimm verkefna sem hlaut veglegan styrk úr Íslenskusjóði Háskóla Íslands 2025. Styrkurinn var veittur til að gefa út nýjan flokk lestrarbóka um Vasaskrímslin á íslensku.
Nýju bækurnar munu innihalda einfaldað efni upp úr lestrarbókum um Vasaskrímslin og verða sniðnar að þörfum byrjenda í lestri með áherslu á að styðja við íslenska hljóðmyndun og lestrarnám byrjenda. Nýju einfaldaðri lestrarbækurnar munu einnig nýtast sérkennurum og nemendum sem læra íslensku sem annað mál.
Stefni ég á að bækurnar verði tilbúnar til útgáfu snemma á haustmánuðum 2025.

Um sjóðinn
Íslenskusjóðinn stofnuðu Elsa Sigríður Jónsdóttir og Tómas Gunnarsson til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, sem jafnframt er formaður stjórnar, Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, og Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.