Vasaskrímslabækurnar og spjöldin okkar eru öll prentuð á Íslandi hjá Háskólaprent.
Háskólaprent er lítil, hágæða prentsmiðja á horninu á Fálkagötu og Suðurgötu í Vesturbænum og eru vörurnar allar prentaðar, útbúnar og afhentar af yndislega starfsfólkinu þar.
❤️
Athugið: Ef þú ert að panta fyrir skóla, bókasafn, frístund eða álíka starfsemi og vilt fá reikning frekar þá er hægt að nálgast pöntunarform hér.
Vasaskrímslabækurnar
Bækurnar um Vasaskrímslin eru gefnar út eftir kynslóðum. Hver kynslóð inniheldur allar þekktar útgáfur af þeim skrímslum sem eru þekkt og tilheyra þeirri kynslóð ásamt öllum þekktum þróunum og útgáfum þeirra.
Hver bók inniheldur íslensk nöfn og lýsingar á íslensku af öllum Vasaskrímslum viðkomandi kynslóðar ásamt öllum þekktum sérþróunum og svæðisútgáfum þeirra. Við hvert skrímsli er mynd af viðkomandi skrímsli ásamt þróunarupplýsingum og tegundar eiginleikum þess.
Mjög breytilegur fjöldi vasaskrímsla er í hverri kynslóð en fjöldi skrímsla sem lýst er í bókunum er eftirfarandi:
- Fyrsta kynslóð: 214 vasaskrímsli.
- Önnur kynslóð: 112 vasaskrímsli.
- Þriðja kynslóð: 165 vasaskrímsli (væntanleg).
Bækurnar eru gefnar út gormaðar og í almanaksbroti þannig að hægt er að leggja þær alveg flatar eða láta þær standa sjálfar á borði.


Lestrarbækurnar
Lestrarbækurnar eru sérstaklega ætlaðar fyrir krakka sem eru aðeins lengra komin í heimalestri. Textinn er einfaldur og mikið um endurtekningar, þannig að lesandinn finnur fyrir getu sinni og sjálfstraust eykst.
- 20 númeraðar bækur.
- Hugsaðar fyrir nemendur í 3. til 5. bekk í grunnskóla.
- Jákvæð lýsingarorð.
- Orðaforðamyndun og efling á málskilningi.
Bækurnar innihalda einfaldað efni upp úr stóru Vasaskrímslabókunum og hefur allur texti verið aðlagaður að þörfum barna sem eru að styrkja sig í lestri.
- Sérstaklega erfið orð eru feitletruð.
- Löng orð brotin upp með bandstrikum til einföldunar.
- Mikið um endurtekningar í texta efla færni og sjálfstraust.
- Aukning á orðaforða og beitingu orða.
- Áhersla á stigskiptingu lýsingarorða.
- Áhersla á jákvæða tilfinningatjáningu.
- Talnalæsi og samanburður (hæð og þyngd).
- Forsíður eru sérhannaðar til að vera grípandi og höfða til drengja.
- Myndefni örvar ímyndunarafl og stuðlar að jákvæðri lestrarupplifun.


Lestrarbækurnar verða fáanlegar í vefverslun innan tíðar.
Auðlesnubækurnar
Auðlesnubækurnar eru ætlaðar algjörum byrjendum í lestri. Textinn er mjög aðgengilegur, mikið um einfaldar endurtekningar og tákn notuð til að létta á erfiðustu orðunum.
- 5 bækur (merktar bókstöfum í íslenska stafrófinu).
- Hugsaðar fyrir nemendur í 1. og 2. bekk í grunnskóla.
- Táknmyndir notaðar til að einfalda lestur á löngum orðum.
Bækurnar innihalda mjög einfaldað efni upp úr stóru Vasaskrímslabókunum og hefur allur texti verið aðlagaður að þörfum barna sem eru að hefja lestrarvegferðina.
- Stórt aðgengilegt letur.
- Erfið orð brotin upp með bandstrikum til einföldunar.
- Mikið um endurtekningar í texta efla færni og sjálfstraust.
- Samanburður á hæð hluta.
- Orðaforðaaukning.
- Forsíður eru sérhannaðar til að vera grípandi og höfða til drengja.
- Myndefni örvar ímyndunarafl og stuðlar að jákvæðri lestrarupplifun.


Auðlesnubækurnar verða fáanlegar í vefverslun innan tíðar.
Veggspjöldin

Veggspjöldin af Vasaskrímslunum eru líkt og bækurnar gefin út eftir kynslóðum. Þau sýna mynd af vasaskrímslunum ásamt númeri og nafni þess á íslensku. Veggspjöldin fara einstaklega vel upp á vegg hjá áhugasömum ungum þjálfurum.
Athugið að veggspjöldin innihalda einungis upphaflegu myndir Vasaskrímslanna, engar sérútgáfur, svæðisútgáfur eða sérstakar þróunarmyndir skrímslanna er að finna á veggspjöldunum.

Öll veggspjöldin okkar eru prentuð á hágæða pappír sem endist vel í ramma. Hægt er að fá veggspjöldin í ýmsum stærðum og gerðum, annars vegar í A2 eða A3 stærðum eða í öðrum hefðbundnari "ramma stærðum" 30x40cm eða 50x70cm.
Við bjóðum einnig upp á að plasta veggspjöldin í matt plast sem endurkastar ekki ljósi eða sól. Plöstunin eykur líftíma (og "þreifiþol") þeirra til muna og við mælum eindregið með þessum valkosti ef ekki á að ramma veggspjaldið inn.
Athugið að við bjóðum ekki upp á innrömmun á veggspjöldunum, hinsvegar bendum áhugasömum á að 30x40 eða 50x70 stærðirnar passa mjög vel í IKEA eða JYSK ramma.

Smáspjöldin

Smáspjöldin okkar eru frábær fyrir Vasaskrímslaþjálfara á ferð og flugi. Þau eru fáanleg í A4 stærð og líta alveg eins út og veggspjöldin nema þau eru minni og henta betur til að ferðast með.
Spjöldin fást einungis innplöstuð en það er gert til að auka endingartíma og gera áhugasömum kleyft að njóta vasaskrímslanna í rökræðum við eldhúsborðið, í nestistíma, í útileikjum, í baði eða til að ferðast með í skólatöskunni án þess að hafa áhyggjur af því að spjaldið skemmist.
Einnig er hægt að krota á spjöldin þegar verið er að leika með þau með venjulegum töflutússum. Svo þegar leiknum er lokið er sára einfalt að strjúka af þeim með rökum klút og þau eru þá eins og ný!
